ELJA kammersveit í röðinni Velkomin heim, 7. janúar kl. 17:00 í Hörpu
Það er skammt stórra högga á milli hjá hinni nýstofnuðu kammersveit Elju. Í upphafi árs færa þau okkur bæði gamalt og nýtt, Brandenburgarkonsert númer 5 eftir J.S. Bach., Septett eftir Alfred Schnittke, saminn 1982 og verkið otoconia eftir Báru Gísladóttur, bassaleikara Elju. Verkið var pantað og frumflutt af strokkvartettinum Sigga árið 2016 og var í kjölfarið valið sem framlag Íslands á Alþjóða tónskáldaþinginu 2017. Hér spenna þau breiðan boga í tíma og rúmi og bjóða okkur í heillandi ferðalag andstæðna í stíl og efnistökum. Septettinn eftir Alfred Schnittke var skrifaður og frumfluttur í Moskvu árið 1982. Þá var Schnittke 48 ára gamall og hafði klárað sína þriðju sinfóníu árið áður. Verkið ber það í skauti sér sem tónskáldið er þekktast fyrir, að láta fjarskyldum stílum ægja saman án þess að skeyta um hvort grunlausum áheyrendum gæti orðið bilt við. Eftir hógværan fyrsta kafla sem kynnir litapallettu verksins tekur við þáttur sem virðist fyrst vera klipptur út úr verki eftir amerískan mínímalista, en innan skamms heyrist hvernig ókunnugum hljóðum eru skeytt inn í síendurtekið mynstrið. Ýmislegt annað lítur dagsins ljós í hringiðu miðkaflans en síðasti kaflinn er svo hægur kórall þar sem orgelið spilar nánast ójarðneska hljóma. Hann nær svo hámarki í stórfenglegum en um leið angurværum samrómi og leitast að lokum við að skreppa aftur til gleði og galsa miðkaflans. Brandenborgarkonsertar Bachs eru meðal vinsælustu og skemmtilegustu verka hans. Konsertarnir eru sex talsins og voru gjöf frá Bach til Markgreifans af Brandenborg og Schwedt árið 1721. Á þessu tímabili bjó Bach í Köthen í Þýskalandi og konsertarnir eru einungis einn flokkur af ótal meistaraverkum sem Bach samdi á meðan hann bjó þar. Raunar voru árin hans í Köthen, 1717-1723, meðal þeirra sælustu og afkastamestu sem hann átti. Meðal annara tónlistargersema sem hann samdi á þessum árum má nefna sellósvíturnar sex, fjórar hljómsveitarsvítur og sex sónötur og partítur fyrir einleiksfiðlu. Fimmti Brandenborgarkonsertinn er eitt lífsglaðasta og orkumesta tónverk tónskáldsins. Ekki nóg með það þá ryðst Bach langt á fram úr sínum tíma með því að skrifa semballsóló og kadensu sem frekar mætti að búast við að heyra í píanókonsert eftir Mozart eða Beethoven. Aldrei áður hafði nokkurt tónskáld fléttað þvílíkum hljómborðsparti inn í konsert! Auk sembalsins eru fiðla og flauta í einleikshlutverki í öllum köflum verksins. Fyrsti kaflinn, Allegro, er opinnskár og glaðvær. Í honum tekur semballinn stærsta einleikshlutverkið, en undir lok kaflans detta öll önnur hljóðfæri út og semballeikarinn leikur hina fræknu kadensu. Annar kaflinn er merktur Affetuoso sem gefur til kynna að hann skuli spila ástúðlega og með mikilli tjáningu. Ólíkt fyrsta kaflanum, sem er í hinni glaðlegu D-dúr tóntegund, þá er annar kaflinn í h-moll. Hann er hægur og lýrískur, með sorglegu yfirbragði og myndar því fallega andstöðu við hina tvo kaflana. Í þriðja kaflanum snúum við heim í D-dúrinn á léttum, danslegum nótum. Eins og í fyrri köflunum flytur semballinn sig áreinslulaust milli þess að vera meðleikshljóðfæri og einleikari. Þriðji kaflinn er hress og virtúósalegur og verkið endar í sama farsæla huga og það byrjaði. Aðgangur er ókeypis
