Tónleikaröðin Velkomin heim:"Úr djúpinu" FRESTAÐ TIL 25. FEB kl 20:00
“Úr djúpinu” í Björtuloftum á sunnudag
Sunndaginn 25. febrúar verða tónleikar í tónleikaröðinni Velkomin heim í Björtuloftum. Bassaleikarinn og tónskáldið Sigmar Þór Matthíasson hefur sett saman tónleikadagskrá frumsaminna verka fyrir hina óvenjulegu hljóðfæraskipan kontrabassa og fagott, þar sem þessi „djúpu“ hljóðfæri fá bæði að njóta sín í einleik og meðleik. Með honum leikur Snorri Heimisson fagottleikari og munu þeir kanna ótroðnar slóðir dúó formsins með tilheyrandi frjálsleika og fagurheitum. Engin stefna er þeim óviðkomandi en megináherslan er þó á leik af fingrum fram í hinu óútreiknanlega umhverfi dúó formsins.

Sigmar Þór Matthíasson útskrifaðist með láði vorið 2016 með BFA gráðu í jazz- og nútímatónlist frá hinum virta háskóla The New School í New York borg í Bandaríkjunum og hefur leikið á fjölda tónlistarhátíða, t.d. Jazzhátíð Reykjavíkur, Bern Jazz Festival í Sviss, Oslo Jazzfestival í Noregi, Jazz Finland Festival í Helsinki og Nordic Jazz Festival í Washington DC í Bandaríkjunum.
Snorri Heimisson lærði við konunglega konservatoríið í Kaupmannahöfn og lauk námi með með Diploma í fagottleik. Hann er stjórnandi Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts og hefur m.a. komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hljómsveit Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveit norðurlands, nútímahópnum Aton, Kammersveitinni Ísafold auk margra annarra hópa. Tónleikarnir hefjast kl 20.00 og aðgangur er ókeypis.