Raddir í Loftinu - Klassík í Vatnsmýrinni

Sigríður Ósk Kristjándsdóttir mezzósópran og Edda Erlendsdóttir píanóleikari flytja dagskrá sem ber titil ljóðaflokks eftir John Speight við ljóð Sigurðar Pálssonar sem verður frumfluttur á tónleikunum en flokkurinn er saminn sérstaklega fyrir Sigríði Ósk. Hún heillaðist af umfjöllun Sigurðar um röddina og áhrifaríkum ljóðum hans í ljóðabókinni Ljóð muna rödd sem kom út árið 2016 og valdi hún ljóðin í samráði við tónskáldið. Dagskrá tónleikanna frönsk-íslensk og inniheldur auk ljóðaflokksins verk eftir Reynaldo Hahn og Maurice Ravel. Söngvar eða raddir sem tala til okkar úr ýmsum áttum frá ýmsum tímum, m.a. frá Íslandi, Frakklandi, Spáni, Ítalíu og Afríku. Tveir gestir koma til liðs við flytjendur í einu verki, þær Emilía Rós Sigfúsdóttir þverflautuleikari og Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari.
Efnisskrá: John Speight - Raddir í loftinu Maurice Ravel - Quatre chanson populaires / Chansons Madégasses / Deux Mélodies hébraïques Reynaldo Hahn - La Barcheta úr söngflokknum Venezia Sigridur Ósk Kristjánsdóttirlauk söng- og píanókennaranámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og óperudeild, Artist Diploma og meistaragráðu frá Royal College of Music í London. Sigríður Ósk syngur reglulega í óperum, óratoíum og á ljóðatónleikum hérlendis og erlendis. Hún hefur sungið yfir tuttugu óperuhlutverk m. a. með Glyndebourne Óperunni, English National Opera, English Touring Opera og Íslensku Óperunni þar sem hún söng m.a. hlutverk Rosinu í Rakaranum frá Sevilla. Sigríður Ósk hefur sungið í tónleikasölum eins og Royal Albert Hall, Kings place og Cadogan Hall í London en þar söng hún ásamt Dame Emma Kirkby en tónleikunum var útvarpað á Classic FM. Sigríður söng í Klassíkinni Okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2017 og 2018. Sigríður er meðlimur í barokk-bandinu Symphonia Angelica þau komu m.a. fram á Listahátíð í Reykjavík 2016. Sigríður var tilnefnd til Íslensku Tónlistarverðlaunanna árin 2016, 2017 og 2018. Edda Erlendsdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan bæði einleikaraprófi og píanókennaraprófi. Hún stundaði síðan framhaldsnám við Tónlistarháskólann í París og lauk þaðan prófi 1978. Hún var árið 1990 valin fulltrúi Menuhin stofnunarinnar. Edda hefur verið búsett í París síðan 1973 þar sem hún hefur kennt og starfað, m.a. við Tónlistarháskólann í Lyon og Tónlistarskólann í Versölum. Hún starfar nú sem gestakennari við Listaháskóla Íslands. Ásamt kennslu hefur Edda hefur haldið fjölmarga tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum á Íslandi, m.a. á Myrkum Músikdögum, hjá Kammermúsikklúbbnum, í Salnum, á Listahátíð í Reykjavík, á Tíbrá tónleikum og með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Auk þess hefur hún komið fram í Frakklandi,Skandinavíu, Englandi, Belgíu, Þýskalandi, Spáni, Sviss, Ítalíu, Rússlandi, Lettlandi, Úkraínu, Bandaríkjunum og í Kína. Edda hefur gert fjölda upptaka bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp og einnig leikið inn á diska með píanóverkum eftir C.P.E.Bach, Grieg, Haydn, og Tchaikovksky Schubert, Liszt, Schönberg og Berg sem hlotið hafa viðurkenningu og lof gagnrýnenda. Edda hefur tvisvar hlotið Íslensku Tónlistarverðlaunin. Árið 2004 ásamt Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara fyrir disk þeirra með verkum eftir Kodaly, Martinu, Janacek og Enescu og aftur árið 2009 fyrir disk með 4 píanókonsertum eftir Haydn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky. Edda Erlendsdóttir var sæmd Íslensku Fálkaorðunni fyrir framlag sitt til tónlistar þann 17. júní 2010. Aðgangseyrir er kr. 3.000, 2.000 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja, ókeypis fyrir nemendur og gesti 20 ára og yngri. Klassík í Vatnsmýrinni er tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna – klassískrar deildar FÍH í samvinnu við Norræna húsið. Aalto bistro er opið til kl 21.30 á tónleikadag