Fréttir af aðalfundi 2020
Aðalfundur FÍT-klassískrar deildar FÍH var haldinn mánudaginn 7. september síðastliðinn við ágæta mætingu, í sal FÍH í Rauðagerði.
Gestur fundarins var Gunnar Hrafnsson formaður FÍH, sem fór annars vegar yfir ýmis kjaramál og svo ásamt formanni FÍT, Hallveigu Rúnarsdóttur yfir aðgerðir tónlistargeirans gagnvart ríkinu vegna Covid-19.
Á fundinum hætti Ágúst Ólafsson í stjórn og Eva Þyrí Hilmarsdóttir í varastjórn og eru þeim þökkuð góð störf í þágu félagsins. Inn í aðalstjórn kom Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og í varastjórn Hafdís Vigfúsdóttir og hlökkum við til samstarfs við þessar kjarnakonur.
Fram kom á fundinum að verið sé að skoða að halda lítið málþing og hátíðarfund í tilefni afmælis félagsins, en það er 80 ára í ár. Við hvetjum félagsmenn til að koma með tillögur að hvað væri áhugavert að fjalla um á slíku málþingi við formann.

Fundurinn hófst á úthlutun úr Hljómdiskasjóði og til tónleikahalds í Klassík í Vatnsmýrinni. Ekki var hægt að veita tónleika í Tónalandi á fundinum þar eð úthlutunarnefnd hafði ekki lokið störfum.
Úr Hljómdiskasjóði voru veittir þrír styrkir að þessu sinni, þá hlutu Þórarinn Stefánsson píanóleikari, Aulos Ensemble og tríóið Tríópa.
Tvennum tónleikum var úthlutað í KÍV að þessu sinni, þá hlutu Svanur Vilbergsson sem heldur tónleika þann 10. mars næstkomandi og Hanna Dóra Sturludóttir og Snorri Sigfús Birgisson sem halda tónleika 14. apríl.
Hér að neðan koma nánari lýsingar á tónleikunum:
Sunnan yfir saltan mar: verk fyrir einleiksgítar eftir Heitor Villa-Lobos, Sergio Assad, Federico Moreno-Torroba og Antonio José, og frumflutningur á nýju verki eftir Svein Lúðvík Björnsson.
Steinalög: A Charm of Lullabies eftir Benjamin Britten og Sequenza III eftir L. Berio auk nýrra og nýlegra verk eftir íslensk tónskáld.